Framkvæmdastjóri GG oftast eina konan við fundarborðið

Félag kvenna í atvinnurekstri gaf nýlega út sérblað í samstarfi við Fréttablaðið en þar má finna viðtal við Brynhildi S. Björnsdóttur, framkvæmda- og fjármálastjóra GG Verk. 

Hér er viðtalið í heild sinni:

Brynhildur S. Björnsdóttir hefur gegnt starfi framkvæmda- og fjármálastjóra GG Verk í á þriðja ár. Hún segir mikla áskorun að vera ein fárra kvenna í stjórnunarstöðu í karllægum byggingariðnaðarheimi en um leið afar þroskandi og valdeflandi. Að hennar mati væri mjög til bóta ef kynjahlutföllin í geiranum væru jafnari.

Byggingafyrirtækið GG Verk fagnaði tíu ára afmæli í fyrra. Að sögn framkvæmda- og fjármálastjórans Brynhildar S. Björnsdóttur er í grunninn um að ræða fjölskyldufyrirtæki sem hefur öðlast traust með góðum vinnubrögðum og persónulegum tengslum. GG Verk byrjaði sem undirverktaki í uppsteypu en sinnir í dag aðalverktöku fyrir stærri verkefni, byggir sjálft og selur.

Þegar Brynhildur tók til starfa á vormánuðum 2014 störfuðu um tuttugu manns hjá GG Verk og var fyrirtækið eingöngu í verktöku. „Nú tveimur árum síðar erum við um sextíu í fyrirtækinu og erum einnig farin að byggja sjálf og selja.“ Brynhildur segist hafa vitað að hún væri að taka við flottu fyrirtæki með óflekkað orðspor en til hennar var leitað með það fyrir augum að innleiða stefnumiðaðri stjórnunar- og rekstrarhætti. „Ég byrjaði á grunninum. Hélt massíva stefnumótun með eigendum og starfsmönnum þar sem við komum okkur saman um gildi og áherslur sem voru í takt við rætur fyrirtækisins og fjölskyldusögu; góð samskipti, ábyrgð, traust og snyrtimennska í allri framleiðslu og frágangi. Þá fékk ég til liðs við okkur frábæra hönnuði hjá Farva til að vinna með ytri ásýnd sem passaði fyrirtækinu.  Þegar ég fór svo að greina samkeppnisumhverfið sá ég að það var aðeins eitt fyrirtæki á markaðnum með ISO9001 gæðavottun. Ég henti mér því í að setja upp slíkt kerfi og innleiða og með samhentu átaki allra tókst okkur að fá gæðavottun á átta mánuðum. Það hefur svo aftur hjálpað gríðarlega í því stækkunarferli sem við höfum verið í. Þannig tekst okkur að samræma vinnubrögð og verklag á öllum vígstöðvum. Eins er það innbyggt í kerfið að við séum alltaf að mæla gæðamarkmið okkar og bera saman. Við fylgjumst því mjög vel með öllum mælanlegum markmiðum á borð við frávik og starfsánægju. Sömuleiðis öllum fjárhagslegum markmiðum. Þannig tekst okkur að átta okkur á öllum mistökum fljótt og gera enn betur,“ lýsir Brynhildur. Hún merkir gríðarleg framför með tilkomu gæðakerfisins. „Við náðum t.a.m. öllum gæðamarkmiðum okkar í fyrra sem var sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að við fögnuðum 10 ára afmæli um leið.“

Brynhildur á fjögur börn á aldrinum átta til tuttugu ára. Hún er með M.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, með áherslu á stjórnun og stefnumótun. Þá er hún með BA próf í HHS (heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði) og með diplóma í frumkvöðlafræði. „Á síðasta ári bætti ég við mig námi í Harvard Business School sem er sérhæft fyrir framkvæmdastjóra og miðar að því að finna samkeppnisforskot hvers fyrirtækis. Þar gafst mér tækifæri til að vinna sérstaklega með GG Verk.“

Brynhildur útskrifaðist úr viðskiptafræðinni á sögulega vondum tíma og sá fram á að þurfa að skapa sín eigin atvinnutækifæri. „Ég stofnaði því fyrirtækið Hagsýn með góðri vinkonu minni en það sérhæfði sig í viðskiptaþróun og fjármálum frumkvöðla. Við vorum með um sjötíu fyrirtæki í handleiðslu og bókhaldsumsjón þegar við seldum fyrirtækið vorið 2014 og ég fór yfir til GG Verk. Á þeim tíma var ég líka varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð og lenti óvænt inni á þingi fram á sumar. Það má því segja að ég taki formlega við stöðu minni hjá GG Verk sumarið 2014.“

En hvernig er að vera kona við stjórnvölinn í byggingarbransanum? „Það hefur verið ótrúlega lærdómsríkt. Ég er fyrst og fremst í öllu sem viðkemur rekstrinum og hef í grunninn lítið vit á  framleiðslunni sjálfri en bý að því að hafa fagmenn í öllum lykilstörfum framleiðslunnar. Án þeirra væri fyrirtækið ekkert. Ég hef hinsvegar fengið að vasast í öllu hinu; mannauðsmálum, markaðsmálum, fjármálunum, innleiðingu gæðakerfisins og svo auðvitað að móta stefnu og framtíðarsýn og fylgja eftir.“

Að sögn Brynhildar hefur það verið talsverð áskorun að vinna í jafn karllægum heimi. „Ég get talið það á fingrum annarrar handar hversu oft kona hefur setið með mér við fundarborðið á þessum rúmu tveimur árum í starfi. Að mínu mati þarf tilfinnanlega að jafna kynjahlutföll í þessum geira. Það er aldrei gott þegar heill bransi stjórnast af öðru hvoru kyninu. Ég hvet því allar konur til að prófa. Það er virkilega lærdómsríkt og ekki síður valdeflandi að takast á við strákaheiminn.“