Uppfærð framtíðarsýn, ásýnd og heimasíða á 15 ára afmæli GG
Í dag kynnum við með stolti uppfærslu á vörumerki GG, heimasíðu, framtíðarsýn og skipulagi. Hér má sjá uppfært vörumerki og ásýnd GG, unnið af snillingunum og grafísku hönnuðunum okkar Tobbu og Sæþóri í Farva.
Og svona hefur það þróast með okkur…
Á 15 árum frá stofnun höfum við vaxið og dafnað og hlotnast ótrúlega gæfurík verkefni og unnið með stórkostlegu fólki. Eins og öllum 15 ára unglingum sæmir fórum við í rækilega naflaskoðun á árinu og áttuðum okkur á því að við yrðum að ákveða hvað við yrðum þegar við yrðum stór. Við greindum hismið frá kjarnanum og komumst að því að mest af öllu elskum við fólk og að hjálpa þeim að láta drauma sína rætast. Þess vegna endurskilgreindum við hlutverk okkar, gildi og leiðarljós og smíðuðum nýtt og bætt stjórnkerfi sem styður við framtíðarsýn okkar og áherslur.
Til þess að við getum uppfyllt hlutverk okkar af metnaði og náð árangri smíðuðum við nýtt stjórnkerfi sem við köllum nú “GGM” eða GG Módelið. Það byggir á skýrri og sameiginlegri framtíðarsýn, mælanlegum árs- og ársfjórðungsmarkmiðum, vikulegum fundarpúls með skorkorti, auknu gagnsæi og ábyrgð allra.
Ástríða okkar, gildi og gæðatrygging felst í því að setja fólk ávallt í fyrsta sæti, sýna fyrirhyggju og ábyrgð í verki - sem tryggir áreiðanleika í öllu sem við gerum.
Nýjar áherslur kalla á nýtt skipulag. Eina leiðin að árangri er að allir vinni í sömu áttina, hafi sameiginlega sýn, hafi ástríðu fyrir gildum GG og þekki vel hvaða ábyrgð þeir hafa í stóru myndinni. Þess vegna erum við ekki með “skipurit” - heldur ábyrgðarit.