GG hefur framkvæmdir í hjarta Hafnarfjarðar!
Framkvæmdir hófust í gær á íbúðar- og verslunarhúsnæði við Dvergsreit í Lækjargötu 2 í Hafnafirði. Um er að ræða 23 íbúðir ásamt atvinnurými í fallegum húsaklasa.
Arkitektar og hönnuðir eru KRADS og TRÍPÓLÍ en þeir hlutu fyrstu verðlaun í samkeppni Hafnafjarðarbæjar árið 2017 um nýja blandaða byggð á gamla Dvergsreitnum. Tillagan var unnin fyrir GG Verk, sem hefur nú hafið framkvæmdir en Klapparholt ehf er eigandi og söluaðili reitsins.
Vinningstillöguna má sjá hér.
Lækjargata 2 er á eftirsóknarverðu svæði fyrir íbúðarbyggð og verður mikil prýði fyrir ásýnd bæjarins. Af henni er útsýni yfir Lækinn, kirkjusvæðið og hluta miðbæjarins. Við mótun húsanna er leitast við að fella húsin að aðliggjandi húsum við Lækjargötu og Brekkugötu hvað varðar form, efnisval og stærðarhlutföll, þannig að þau virki sem eðlilegt framhald af þeirri byggð sem fyrir er.
Hin nýja Dvergsbyggð verður þétt og blönduð byggð 23 íbúa og smærri reksturs, sem á að koma til móts við kröfur og þarfir íbúa í nútíma samfélagi. Markmið hönnunar á byggðinni var að skapa einskonar þorpsandrúmsloft, þ.e. ramma fyrir hlýlegt mannlíf - bæði íbúanna sem hafa sitt viðverusvæði í skjólgóðum húsagarðinum fjærst götunum, og annarra sem sækja verslun, þjónustu eða aðra menningu á jarðhæðunum sem snúa að götunni.
Eins og sjá má á myndum verða húsin í byggðinni að stærstum hluta sett niður með tilvísun í aðliggjandi timburhúsabyggð. Skipulag byggðarinnar er sótt í gömlu timburhúsabyggðina við Brekkugötu og víðar, þar sem húsin liggja ekki í röð og reglu heldur eru sett niður á lífrænan hátt, þar sem þeim er tyllt niður í lifandi “óreglu” eða dansi hvort með öðru, sem eykur á líflega ásýnd byggðarinnar og tengingu við þá bæjarmynd sem fyrir er.
Áætlað er að framkvæmdir taki um 18-20 mánuði og er það einlægur vilji okkar að framkvæmdin verði unnin í sátt og samlyndi við íbúa og aðra nágranna. Stofnaður hefur verið sérstakur Facebook upplýsingahópur um framkvæmdina fyrir nágranna og hvetjum við þá sem vilja að senda okkur póst á abending@ggverk.is ef eitthvað má betur fara á meðan framkvæmdum stendur.
Eðli málsins samkvæmt má búast við aukinni umferð fólks, ökutækja/vinnuvéla og verktaka við nærliggjandi götur. Reynt verður þó í lengstu lög að lágmarka hávaða og takmarka röskun vegna framkvæmdanna en við komumst þó því miður ekki hjá því að skapa einhver óþægindi á meðan framkvæmdunum stendur. Enda er athafnasvæðið þröngt og í miðri íbúðabyggð.